Um verkefnið

Bakgrunnur verkefnisins

Reglubundin hreyfing og þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur margvísleg jákvæð áhrif á heilsu, líðan og árangur í leik og starfi. Að mörgu er þó að huga og miklu máli skiptir að þjálfunarmagn, orku- og næringarefnainntaka, sem og önnur heilsuhegðun, styðji sem best við heilsu- og árangurstengda þætti. Sé það ekki raunin er hætt við að jákvæð áhrif íþróttaiðkunar geti með tímanum snúist upp í andhverfu sína. 

Tiltæk orka (e. energy availability) er lykilhugtak í íþróttanæringarfræði og tengdum vísindum, og vísar til þeirrar orku sem stendur eftir fyrir grunnstarfsemi líkamans þegar búið er að draga þá orku sem varið er við líkamlega þjálfun, frá orkunni sem fæst úr fæðunni sem neytt er dag hvern.

Hlutfallslegur orkuskortur í íþróttum (e. Relative Energy Deficiency in Sport, REDs) stafar af viðvarandi skorti á tiltækri orku og hefur víðtæk áhrif á íþróttafólk, óháð kyni og getustigi. Áhrif REDs geta meðal annars falið í sér skerðingu á efnaskiptahraða, hormónastarfsemi og tíðahring kvenna, beinheilsu, ónæmisvörnum, nýmyndun próteina og starfsemi hjarta- og æðakerfis. Slíkar truflanir á líkamsstarfsemi geta haft neikvæð áhrif á heilsu og íþróttaárangur til lengri og skemmri tíma.

MYND: Möguleg áhrif REDs á A) heilsu og B) afkastagetu/íþróttaárangur, þýtt og staðfært með leyfi Mountjoy o.fl. (2014). *Þrenna íþróttakonunnar (e. Female Athlete Triad) er felld inn í líkanið **Áhrif á geðheilsu geta ýmist verið orsök eða afleiðing REDs. Afritun og notkun óheimil án leyfis.

Erlendis hefur algengi REDs verið metið allt að 60% hjá íþróttafólki en virðist mjög breytilegt milli ólíkra íþróttagreina og jafnvel sérhæfingar innan þeirra. Áhættan er talin hvað mest í úthaldsíþróttum, fagurfræðilegum íþróttum (til dæmis fimleikum og listdansi) og þyngdarflokkaíþróttum (til dæmis júdó og glímu) þar sem mögulegir áhættuþættir geta verið kröfur tengdar líkamsþyngd, útliti og líkamslögun samhliða miklu þjálfunarálagi. Vandamál sem þessi geta þó komið fram hjá einstaklingum í öllum íþróttagreinum og á mismunandi getustigum.

Hérlendis hefur skort rannsóknir á tiltækri orku og REDs meðal íslensks íþróttafólks. Þróun íslenskra skimunartækja og ráðlegginga þarf að byggja á hérlendum rannsóknum, sem jafnframt kemur til með að efla forvarnir og meðferð.

Lesa má nánar um REDs og fræðilegan bakgrunn verkefnisins í yfirlitsgrein okkar sem birtist í Læknablaðinu í september 2020.

Markmið og rannsóknaráætlun

Markmið RED-Í er að meta tiltæka orku, algengi og áhættuþætti REDs meðal íslensks íþróttafólks sem æfir og keppir á framhalds- og afreksstigi í sinni íþróttagrein. Íþróttafólki yfir 15 ára aldri úr völdum einstaklings- og liðsíþróttagreinum verður boðin þátttaka.

Rannsóknarverkefnið fer fram í tveimur hlutum. Í þeim fyrri, sem hófst á haustmánuðum 2021, er rafrænn spurningalisti lagður fyrir en í þeim seinni fær hluti þátttakenda boð um þátttöku í frekari mælingum.

Við undirbúning verkefnisins voru spurningalistar og skimunartæki sem notuð hafa verið í erlendum rannsóknum þýdd og staðfærð. Í verkefninu felst því einnig þróun og prófun þessara skimunartækja hérlendis og samanburður við niðurstöður erlendra rannsókna.

Rannsóknin hefur verið samþykkt af Vísindasiðanefnd (VSNb2021050006/03.01).

Mikilvægi og hagnýting niðurstaðna

Niðurstöður RED-Í gætu lagt grunninn að íslenskum ráðleggingum auk þess að efla forvarnir og meðferð. Verður þar meðal annars byggt á markvissu samtali við íþróttahreyfinguna með það að markmiði að styðja sem best við heilsu og árangur íþróttafólks til lengri og skemmri tíma.